Innlent

Hafnfirðingar hafa ekki efni á að hjálpa

Enginn strætó fer um Álftanes á kvöldin og um helgar. Álftnesingar vilja fjölga ferðum en hafa ekki efni á að greiða reikninginn. Fréttablaðið/heiða
Enginn strætó fer um Álftanes á kvöldin og um helgar. Álftnesingar vilja fjölga ferðum en hafa ekki efni á að greiða reikninginn. Fréttablaðið/heiða
„Hafnfirðingar eru með milljarðalán í vanskilum, eru að skera niður og hagræða á öllum sviðum og með mjög erfiða lausafjárstöðu. Mér finnst það algjörlega galið að leggja til að sveitarfélagið greiði reikninga fyrir aðra,“ segir Rósa Guðbjartsdóttir, bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Hafnarfjarðar.

Á fundi bæjarráðsins 23. júní síðastliðinn var fjallað um erindi frá stjórn Samtaka sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu (SSH) þar sem farið var á leit að þau auki framlög sín í byggðasamlagið Strætó bs. í eitt ár vegna breyttrar þjónustu við Álftanes.

Strætó gengur í um tólf klukkustundir á virkum dögum á Álftanes, á milli klukkan sjö að morgni til sjö að kvöldi. Engar ferðir eru á kvöldin og um helgar.

Erindið barst eftir fund fulltrúa Álftaness og Strætó þar sem fjallað var um óskir um tíðari ferðir Strætó á Álftanes. Fram kom á fundunum að miðað við núverandi fjárhagsstöðu hafi Álftnesingar ekki ráð á að leggja meira fé til Strætó bs.

Áætlað er að útgjöld sveitarfélaganna vegna þessa verði um tíu til fjórtán milljónir króna á ári. Þar af mundu útgjöld Hafnarfjarðarbæjar vegna þessa aukast um 1,5 til tvær milljónir króna á mánuði til áramóta.

Guðrún Ágústa Guðmundsdóttir, formaður bæjarráðsins og formaður Strætó bs., segir tillögu SSH hafa borist seint daginn fyrir fund bæjarráðs. Páll Guðjónsson, framkvæmdastjóri SSH, hafi verið gestur á fundinum og því ákveðið að hann kynnti málið fyrir bæjarráði Hafnarfjarðar. Ekki hafi átt að afgreiða málið á sama tíma enda ekki hluti af útsendri dagskrá.

Hún bætir við að of snemmt sé að segja til um afdrif málsins enda eigi eftir að afgreiða það í öðrum sveitarfélögum sem hlutdeild eiga í Strætó bs. Málið hefur verið afgreitt af hálfu Garðbæinga. Hún telur líkur á að tillaga stjórnar SSH verði afgreidd í næstu viku.

Rósa segir Hafnfirðinga eiga í nægu basli með sig. Ekki sé á bætandi að greiða fyrir bætta þjónustu við sveitarfélag sem hafi ekki sjálft efni á henni. jonab@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×