Erlent

Þarf að sigrast á félagslegum vandamálum

David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, segir að draga þurfi lærdóm af óeirðunum, sem kostuðu fimm manns lífið.
David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, segir að draga þurfi lærdóm af óeirðunum, sem kostuðu fimm manns lífið. Mynd/AP
„Þetta hefur orðið til þess að vekja okkur upp hér í landi. Félagsleg vandamál sem hafa grafið um sig áratugum saman hafa nú sprungið framan í okkur,“ sagði David Cameron, forsætisráðherra Bretlands og leiðtogi Íhaldsflokksins.

Hann segir Breta verða að takast á við þá landlægu leti, ábyrgðarleysi og eigingirni sem hann segir rótina að fjögurra daga óeirðum í síðustu viku. „Rétt eins og fólk vildi í síðustu viku taka hart á glæpamönnum á götunum, þá þurfum við nú að takast á við þessi félagslegu vandamál og sigrast á þeim.“

Cameron neitar því hins vegar að fátækt, kynþáttaspenna og harðar aðhaldsaðgerðir stjórnvalda hafi átt stóran hlut að máli. Þess í stað benti hann á glæpagengi og það sem hann kallaði hið örláta velferðarkerfi Bretlands.

„Föðurlaus börn. Agalausir skólar. Afrakstur án erfiðis. Glæpir án refsingar. Réttindi án ábyrgðar. Samfélög án aðhalds. Sumar verstu hliðar mannlegrar náttúru eru látnar átölulausar, og jafnvel ýtt undir þær, af ríkinu og stofnunum þess sem að hluta eru bókstaflega orðnar siðlausar,“ sagði hann.

Ed Miliband, leiðtogi Verkamannaflokksins og þar með stjórnarandstöðunnar, segir Cameron þarna einfalda málin um of. Hann vill að stjórnvöld einbeiti sér að því að útvega óánægðum ungmennum tækifæri í lífinu.

- gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×