Erlent

Stangast á við orð Murdochs

Clive Goodman
Clive Goodman
Clive Goodman, fyrrverandi blaðamaður á breska æsifréttablaðinu News of the World, segir að símhleranir hafi verið mikið notaðar á ritstjórn blaðsins með vitund og fullu samþykki yfirmanna.

Þetta kemur fram í bréfi, sem Goodman skrifaði fyrir fjórum árum en rannsóknarnefnd breska þingsins hefur nú gert opinbert.

Þessar fullyrðingar Goodmans, sem hefur hlotið dóm fyrir símhleranir, stangast á við yfirlýsingar yfirmanna og eigenda blaðsins, sem hafa statt og stöðugt haldið því fram að Goodman hafi verið eini blaðamaðurinn á blaðinu sem hafi haft eitthvað með þessar símanjósnir að gera.

Í bréfinu, sem stílað er á Daniel Cloke, þáverandi framkvæmdastjóra hjá News International, fyrirtækinu sem gaf út News of the World, segir Goodman berum orðum að símanjósnir hafi verið „mikið ræddar á daglegum ritstjórnarfundum þangað til ritstjórinn bannaði allar beinar vísanir til þeirra“.

Goodman segist í bréfinu einnig hafa fengið leyfi yfirmanna sinna til þess að stunda símnjósnir og fleiri blaðamenn hafi gert slíkt hið saman.

Breska þingnefndin íhugar nú að kalla James Murdoch, eiganda blaðsins, á ný til yfirheyrslu. Fyrrverandi yfirmenn hjá News of the World búa sig nú undir að koma fyrir nefndina í september.

- gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×