Erlent

35 látnir í árás hersins

Meðal annars var ráðist á borgina utan af sjó, að sögn mannréttindasamtaka. Þá hafa skriðdrekar verið notaðir í hernaðaraðgerðum.
Meðal annars var ráðist á borgina utan af sjó, að sögn mannréttindasamtaka. Þá hafa skriðdrekar verið notaðir í hernaðaraðgerðum. afp photo/ho
35 manns hafa látist af völdum hersins í borginni Latakia í Sýrlandi undanfarna fjóra daga, að sögn íbúa. Af sautján manns sem drepnir voru í landinu á mánudag samkvæmt mannréttindasamtökum voru sex í Latakia.

Vélbyssum var beitt og létust flestir í fátækum hverfum borgarinnar, al-Ramel, al-Shaab og Ein Tamra. Í al-Ramel eru stórar flóttamannabúðir Palestínumanna, sem hafa margir hverjir flúið í burtu á síðustu dögum. Að sögn Flóttamannahjálpar Sameinuðu þjóðanna fyrir Palestínumenn eru allt að tíu þúsund flóttamenn týndir, því ekki er vitað hvar þeir halda sig til.

Stjórnin í Sýrlandi hefur hert árásir sínar til muna undanfarið í tilraun til þess að brjóta mótmælin á bak aftur. Stjórnin segist aðeins vera að uppræta hryðjuverkasamtök, sem valdi óróa í landinu. Mörg mannréttindasamtök hafa greint frá því að það eigi ekki við rök að styðjast. Skotið hafi verið á óvopnaða mótmælendur og 1.800 hafi látist síðan mótmælin hófust í mars. Hernaðaraðgerðir eru einnig í fullum gangi í Hama og Deir el-Zour auk Latakia.

Jay Carney, talsmaður Hvíta hússins, sagði að Bandaríkjamenn myndu leita leiða til að beita Sýrland frekari viðskiptaþvingunum. Assad Sýrlandsforseti yrði að láta af kerfisbundnu ofbeldi, handtökum og morðum á eigin þjóð.

- þeb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×