Erlent

Rannsókn hafin á leka á trúnaðargögnum

Helle Thorning-Schmidt, formaður Sósíaldemókrata í Danmörku, er í kastljósinu vegna skattamála. Rannsókn er hafin á því hvernig trúnaðargögn lentu í höndum fjölmiðla. NordicPhotos/AFP
Helle Thorning-Schmidt, formaður Sósíaldemókrata í Danmörku, er í kastljósinu vegna skattamála. Rannsókn er hafin á því hvernig trúnaðargögn lentu í höndum fjölmiðla. NordicPhotos/AFP
Lögregluyfirvöld í Danmörku hafa hafið rannsókn á því hvort Skatturinn eða skattamálaráðuneytið hafi brotið persónuverndarlög með því að leka trúnaðargögnum um skattamál Helle Thorning-Schmidt, formanns Sósíaldemókrata, og eiginmanns hennar.

B.T. sagði fréttir af því í gær að Thorning-Schmidt hafi nýtt sér persónuafslátt eiginmanns síns, sem er skráður til heimilis í Danmörku, en greiðir þar ekki skatta. Þar af leiðandi hafi Thorning-Schmidt greitt minna en henni bar í skatta á sex ára tímabili.

Hún hefur sjálf lýst því yfir að hún eigi ekkert óuppgert við skattayfirvöld. Þá finnst henni það háalvarlegt að samskipti hennar við skattayfirvöld séu komin í hendur blaðamanna.

Lars Lökke Rasmussen, forsætisráðherra og helsti pólitíski andstæðingur Thorning-Schmidts, vildi ekki tjá sig um málið sem slíkt, en hvatti þó til þess að rannsakað yrði hvernig skattagögnin höfnuðu í höndum BT.

Þingkosningar fara fram í Danmörku þann 15. september, en ekki er víst hvort þetta mál muni koma til með að skaða Thorning-Schmidt. Hún er talin líkleg til að hreppa stöðu forsætisráðherra, miðað við fylgi flokkanna í nýlegum skoðanakönnunum. - þj




Fleiri fréttir

Sjá meira


×