Innlent

Sjaldséð eðla í Landakotskirkju

Eðlan bíður nú örlaga sinna í tilraunastöð HÍ í meinafræði að Keldum.
Eðlan bíður nú örlaga sinna í tilraunastöð HÍ í meinafræði að Keldum. Samsett mynd/Ómar F., Valli

Séra Patrick Breen, sóknarpresti í Landakotskirkju, brá nokkuð í brún í gær þegar hann frétti af því að á kirkjugólfinu stæði rúmlega meters löng græneðla (e. iguana). Séra Patrick segir að kirkjuræknar eðlur teljist undantekning í kirkjustarfinu og fól hann lögreglu lausn málsins.

„Einhver hefur nýtt sér það að kirkjan stendur opin og losað sig við hana með þessum hætti," segir séra Patrick. „Það er leiðinlegt veður og eigandinn hefur ekki haft brjóst í sér til að skilja hana eftir á víðavangi."

Það var Ómar F. Dabney, meindýraeyðir hjá Reykjavíkurborg, sem svaraði kalli lögreglu og sótti eðluna.

„Þetta er með stærri eðlum sem ég hef séð, en hef þó séð þær margar. Þetta eru vinsæl gæludýr þó að það sé ólöglegt að halda þessi dýr hér á landi. Mér skilst að lögregla finni oft dýr sem þessi þegar farið er í húsleitir og annað slíkt. Ég er löngu hættur að kippa mér upp við það að meðhöndla slöngur, eðlur og stórar köngulær," segir Ómar. - shá




Fleiri fréttir

Sjá meira


×