Innlent

Úrslitastund í viðræðum um kísilver í Helguvík

Kristján Már Unnarsson skrifar
Samningaviðræður um kísilverksmiðju í Helguvík gætu klárast í lok þessarar viku. Náist samningar er stefnt að því að framkvæmdir hefjist í apríl.

Bandarískt fyrirtæki í samvinnu við íslenska samstarfsaðila hefur í fjögur ár ár undirbúið smíði kísilverksmiðju í Helguvík. Verkefnið er orðið það þroskað að komið er að úrslitastundu og eru fulltrúar bandarísku fjárfestanna nú staddir hér á landi í þeim tilgangi að ljúka samningum.

Þýðingarmestu samningarnir eru við orkufyrirtækin Landsvirkjun og HS Orku en áformað er að kísilverið kaupi samtals um 65 megavött raforku. Samkvæmt upplýsingum Stöðvar 2 eru viðræður komnar á það stig að menn eru farnir að gera sér vonir um að þeim gæti lokið fyrir næstu helgi með undirritun. Heimildarmenn taka þó fram, þrátt fyrir ákveðna bjartsýni, að málið sé ekki í höfn og hindrunum hafi ekki að fullu verið rutt úr vegi.

Takist samningar gætu hjólin hins vegar farið að snúast hratt því stefnt er að því að hefja framkvæmdir í apríl í vor. Áætlað er að um 150 manns fái vinnu við smíði verksmiðjunnar næstu tvö ár. 90 framtíðarstörf verða svo til þegar framleiðslan hefst, en áætlað er það verði fyrir mitt ár 2013. Tveir ofnar verða í verksmiðjunni, sem framleiða mun um 50 þúsund tonn af hrákísil á ári, en það efni er undirstaðan í sólarrafhlöðum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×