Innlent

Ofsaveður í vændum - foreldrar skólabarna fylgist vel með

Erla Hlynsdóttir skrifar
Mynd úr safni
Í ljósi þess að spáð er afar slæmu veðri næstu nótt og jafnvel frameftir morgni eru foreldrar skólabarna hvattir til að fylgjast vel með veðri og veðurspám.

Dæmi eru um að skólastjórar skóla á höfuðborgarsvæðinu hafi sent út bréf þess efnis. Þar segir að Slökkviliðið á höfðborgarsvæðinu fylgist með veðri og færð allan sólarhringinn og láti fræðslustjóra vita ef ástæða er til að fella niður skólahald í borginni allri eða einstökum hverfum.

Veðurstofa Íslands býst við stormi sunnan- og vestanlands í kvöld, og ofsaveðri í fyrramálið þar sem vindhviður ná allt að 30 metrum á sekúntu. Stormur verður einnig á Norður- og Austurlandi í nótt og á morgun.

Því er beint til foreldra að vera sjálfir vakandi fyrir því að leggja mat á hvort óhætt er að börnin sæki skóla eða hvort þörf er á að þeim sé fylgt. Þá er ítrekað mikilvægi þess að foreldrarnir hafi samband við skólann ef þeir ákveða að halda barni heima en skólahald er með óbreyttu sniði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×