Innlent

Stjórnlagaþing: Allir kostir eru enn á borðinu

Valgerður Bjarnadóttir
Valgerður Bjarnadóttir

Starfshópur stjórnmálaflokkanna og forsætisráðherra um framhald stjórnlagaþingsmála hefur rætt og metið stöðuna á fjórum fundum.

Í gærkvöldi gengu 25-menningarnir sem kjörnir voru til setu á þinginu á fund hópsins.

Starfshópnum er gert að skila forsætisráðherra niðurstöðu fyrir 15. febrúar. Verkefnið er skýrt: að meta hvaða leið sé vænlegust til að ljúka því verkefni að endurskoða stjórnar­skrána, eins og segir í erindisbréfi. Ekki sér fyrir endann á starfinu og óvíst hvort niðurstaða fæst fyrir þriðjudag.

Valgerður Bjarnadóttir, fulltrúi Samfylkingarinnar, segir hópinn einkum hafa rætt um þá kosti sem helst hafa verið viðraðir í fjölmiðlum. Í grófum dráttum eru þeir nýjar kosningar eða skipun 25-menninganna til starfa. Enn sé allt uppi á borðinu. Þá fylgist hópurinn með endurupptökubeiðninni sem lögð var fyrir Hæstarétt. Afstaðan til hennar geti breytt málinu.

Valgerður segir ekki ljóst hvort starfshópurinn skili einróma niðurstöðu. „Það er markmiðið en mér finnst ótrúlegt að það verði einhugur. Líklegra er að það náist meirihluti um einhverja niðurstöðu."

Auk Valgerðar sitja í hópnum Álfheiður Ingadóttir VG, Birgitta Jónsdóttir Hreyfingunni, Höskuldur Þórhallsson Framsóknarflokki og Pétur H. Blöndal Sjálfstæðisflokki. Formaður er Ágúst Geir Ágústsson, skrifstofustjóri í forsætisráðuneytinu.- bþs




Fleiri fréttir

Sjá meira


×