Innlent

Fundað með foreldrum

Skólafundur Borgaryfirvöld hafa boðað til fundar um sameiningar í skólakerfinu. 	Fréttablaðið/Stefán
Skólafundur Borgaryfirvöld hafa boðað til fundar um sameiningar í skólakerfinu. Fréttablaðið/Stefán

Borgaryfirvöld hafa boðað til opins fundar með foreldrum leikskóla- og grunnskólabarna í Ráðhúsinu næstkomandi fimmtudag.

Mikil óvissa hefur ríkt um stöðu skóla- og frístundamála borgarinnar síðustu vikur og mánuði og hafa hugmyndir um sameiningar og samrekstur valdið ugg hjá mörgum foreldrum og starfsfólki.

Oddný Sturludóttir, formaður menntaráðs og starfshóps um fyrrnefndar breytingar, og Jón Gnarr borgarstjóri munu halda framsögu á fundinum.

Samkvæmt tilkynningum frá foreldrafélögum borgarinnar hyggjast foreldrar fjölmenna á fundinn.

Alls eru nú 54 hugmyndir um sameiningar og samrekstur í skólakerfinu komnar á vinnslustig og voru þær kynntar á fjölmennum fundi með stjórnendum leikskóla, grunnskóla og frístundaheimila borgarinnar í gær. Nú tekur við frekari rýning og kostnaðargreining hugmyndanna „með tilliti til faglegra sjónarmiða" eins og segir á vef borgarinnar.

Starfshópurinn sem sér um málið mun skila tillögum til borgar­ráðs fyrir lok mánaðarins. - þj






Fleiri fréttir

Sjá meira


×