Innlent

FIT hostel hugsanlega lokað vegna fjárskorts

Jóhanna Margrét Gísladóttir. skrifar
Fit hostel. Mynd úr safni.
Fit hostel. Mynd úr safni. Mynd úr safni
Útlit er fyrir að hætta þurfi vistun hælisleitenda í Reykjanesbæ á vegum útlendingastofnunar vegna fjárskorts. Hingað til hafa þeir dvalið á FIT hostel í Reykjanesbæ. Forstjóri stofnunarinnar bindur vonir sínar við að stjórnvöld geri breytingar á fjárlögum næsta árs og afgreiði aukafjárveitingu til stofnunarinnar.

Framlag til útlendingastofnunar til að sinna málefnum hælisleitenda er 29 milljónir á ári og hefur ekki verið breytt síðan árið 2003. Á fyrri árum var viðbótarkostnaði mætt með fjárauka en eftir hrun hefur það ekki verið gert. Í upphafi árs var halli stofnunarinnar 27 milljónir á árinu hefur 38 milljónum verið eytt í málefni hælisleitenda og stofnunin því komin 36 milljónir fram úr fjárlögum.

Forstjóri útlendingastofnunar segir þörf á að aðskilja greiðslur í fjárlögum til umönnunar hælisleitenda annarsvegar og í rekstur stofnunarinnar hins vegar. Tillögur þess efnis hafa hins vegar ekki náð fram að ganga og ljóst að grípa þarf til róttækra breytinga hjá stofnuninni ef engin aukafjárframlög fást.

Til dæmis þá kaupir stofnunin nú þjónustu frá Reykjanesbæ til reksturs gistiheimilis fyrir hælisleitendur en nú eru fjörtíu og fimm hælisleitendur í gistingu á vegum stofnunarinnar. Sú þjónusta gæti hins vegar verið í hættu. Forstjóri stofnunarinnar Kristín Völundardóttir vildi ekki veita viðtal vegna málsins þegar þess var leitað í dag en hún segist treysta því að ríkisstjórnin finni lausn á málefnum stofnunarinnar á fundi sínum á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×