Innlent

Himinn og jörð loga á verðlaunaljósmynd

BBI skrifar
Mynd/Sigurður Hrafn Stefnisson
Bæði jörðin og himinninn loga í mynd sem ljósmyndarinn Sigurður Hrafn Stefnisson tók af Heklugosinu árið 1991. Myndin var valin ein af 100 bestu ljósmyndum 113 ára hjá National Geographic árið 2001.

Myndin birtist á vef Geimvísindastofnunar Bandaríkjanna á sunnudaginn sem stjörnufræðimynd dagsins. Í texta með myndinni sagði „Norðurljósabandið dansaði lipurlega sirka 100 kílómetrum yfir flæðandi hrauninu. Ætli jörðin sé eina pláneta sólkerfisins með bæði norðurljósum og eldfjöllum á?"

Hekla er eitt þekktasta eldfjall heimsins og hefur í aldanna rás gengið undir heitinu „Hlið helvítis" á meginlandi Evrópu. Hún hefur gosið alla vega tuttugu sinnum síðustu þúsund ár og stundum valdið gríðarlegum spjöllum. Hekla gaus síðast fyrir 12 árum en olli ekki mikilli eyðileggingu.

Myndin sem birtist með fréttinni er í raun ekki myndin sem vann til verðlauna. Hér er hægt að skoða sjálfa verðlaunamyndina og sömuleiðis fletta gegnum fleiri myndir Sigurðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×