Menning

Virðingarvottur til Kaffibarsins

Arnar Snær Davíðsson varði viku í að mála verk á barborð Kaffibarsins. Hann segir verkið virðingarvott til staðarins.fréttablaðið/vilhelm
Arnar Snær Davíðsson varði viku í að mála verk á barborð Kaffibarsins. Hann segir verkið virðingarvott til staðarins.fréttablaðið/vilhelm
„Við getum kallað verkið virðingavott til Kaffibarsins. Ég hef verið fastagestur þar í fimmtán ár eða lengur,“ segir listamaðurinn Arnar Snær Davíðsson sem málaði verk framan á barborð Kaffibarsins.

Það tók Arnar Snæ viku að ljúka verkinu og vann hann það á nóttunni eftir lokun staðarins. „Ég var þarna allar nætur og stundum alveg fram að opnun næsta dag, þannig að það var lítið sofið þá viku,“ segir Arnar og bætir við að tíminn muni svo leiða í ljós hvort verkið standist áhlaup bargesta kvöld eftir kvöld.

Verkið var afhjúpað á fimmtudaginn var og á því má greina andlit nokkurra meðlima karlakórsins Bartóna, sem Arnar Snær er meðlimur í, auk andlita gamalla og nýrra fastagesta Kaffibarsins. Nokkrar deilur spruttu upp í kjölfarið því að sögn Arnars voru einhverjir ósáttir við að hafa ekki fengið sinn sess á barborðinu. „Fólk getur rifist um það sem eftir er af hverju þessi var málaður en ekki hinn,“ segir hann og hlær.

Arnar útskrifaðist frá City & Guilds of London Artschool árið 2010 þar sem hann stundaði nám í klassískri myndlist. Hann kveðst ánægður með verkið og þakklátur Ægi Dagssyni framkvæmdastjóra sem og öðru starfsfólki Kaffibarsins fyrir að hafa fengið að skilja eftir sig arfleifð á sínu öðru heimili. „Ég er mjög ánægður fyrir að hafa fengið þetta tækifæri. Á Kaffibarnum verða til ástir og örlög og staðurinn hefur verið mitt annað heimili í rúm fimmtán ár.“ -sm






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.