Fótbolti

Tottenham og Liverpool slást um Eriksen í sumar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Christian Eriksen og Kolbeinn Sigþórsson.
Christian Eriksen og Kolbeinn Sigþórsson. Mynd/Nordic Photos/Getty
Danski landsliðsmiðjumaðurinn Christian Eriksen er á sínu síðasta tímabili með Ajax ef marka má fréttir frá Hollandi en það lítur út fyrir að leikmaðurinn verði seldur til Englands í sumar.

Hollenska fréttamiðillinn Standard Sport segir frá því í morgun að Ajax ætli að selja hinn 21 árs gamla Christian Eriksen í sumar. Félagið ætli að láta Eriksen klára samning sinn hjá félaginu sem rennur út 2014 en er nú tilbúið að hlusta á tilboð í leikmanninn.

Tottenham og Liverpool hafa bæði fylgst náið með þessum skemmtilega danska landsliðsleikmanni að undanförnu en samkvæmt heimildum frá herbúðum Akax þá hafa Arsenal, Manchester United eða Barcelona ekki lengur áhuga á leikmanninum.

Það lítur því allt út fyrir að Tottenham og Liverpool slást um Eriksen í sumar. Ajax vill fá fjórtán milljónir punda fyrir Eriksen en þar sem hann á aðeins eitt ár eftir af samningi sínum gæti kaupverðið endað undir tíu milljónum punda.

Christian Eriksen er með 7 mörk og 10 stoðsendingar í 24 leikjum í hollensku deildinni á þessu tímabili en var með 7 mörk og 19 stoðsendingar í 33 leikjum á síðustu leiktíð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×