Sport

Svissneskur úrslitaleikur í Melbourne?

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Svo gæti farið að tveir svissneskir tenniskappar leiki til úrslita í einliðaleik karla á Opna ástralska meistaramótinu í tennis.

Í morgun hafði Stanislaw Wawrinka betur gegn Tékkanum Thomas Berdych og tryggði sér þar með sæti í úrslitaleik á stórmóti í fyrsta sinn á ferlinum.

Wawrinka hefur lengi staðið í skugga landa síns Roger Federer sem leikur gegn efsta manni heimslistans, Spánverjanum Rafael Nadal, í hinni undanúrslitaviðureigninni á morgun.

Wawrinka er í sjöunda sæti heimslistans og hafði betur í æsispennandi viðureign, 6-3, 6-7, 7-6 og 7-6. Hann virðist til alls líklegur í úrslitunum enda sló hann Novak Djokovic, meistara síðustu þriggja ára, úr leik í síðustu umferð.

„Það væri ótrúlegt [að mæta Federer í úrslitunum],“ sagði Wawrinka eftir sigurinn í morgun. „Roger er besti leikmaður allra tíma. Hann sendi mér SMS í gær og sagðist vera ánægður með að Sviss ætti tvo leikmenn í undanúrslitum í fyrsta sinn.“

Þetta er fyrsti úrslitaleikur Wawrinka á stórmóti en hann komst í undanúrslit á Opna bandaríska meistaramótinu í fyrra.


Tengdar fréttir

Æsispenna þegar Wawrinka lagði Djokovic

Svisslendingurinn Stanislas Wawrinka tryggði sér sæti í undanúrslitum á Opna ástralska meistaramótinu í tennis eftir maraþonviðureign við Serbann Novak Djokovic.

Federer mætir Nadal í undanúrslitum

Svisslendingurinn Roger Federer sýndi allar sínar bestu hliðar gegn Andy Murray í átta manna úrslitum á Opna ástralska mótinu í tennis í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×