Enski boltinn

Wenger: Verður erfitt að halda fjórða sætinu

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Everton vann Arsenal, 3-0, í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta í gær og nú munar aðeins einu stigi á liðunum. Arsenal er með 64 stig stig í fjórða sæti en Everton 63 stig í fimmta sæti og á leik til góða.

Þetta var jafnframt fyrsti sigur Everton á Arsenal í 15 tilraunum en heimamenn réðu lögum og lofum í leiknum og var aldrei spurning um hvort liðið myndi fara með sigur af hólmi.

Arsenal hefur verið á niðurleið undanfarnar vikur eins og svo oft áður í mars og byrjun apríl en liðið sem var í baráttunni um Englandsmeistaratitilinn fyrir ekki svo löngu þarf nú að berjast fyrir því að halda fjórða sætinu.

„Ég er 100 prósent staðráðinn í að berjast fyrir fjórða sætinu en það verður erfitt,“ sagði Arsene Wenger eftir leikinn en hann hefur endað með Arsenal-liðið á meðal fjögurra efstu 16 tímabil í röð.

Leikjadagskrá Arsenal það sem eftir lifir leiktíðar er nokkuð þægileg og það viðurkennir Frakkinn. Leikmennirnir verða þó að standa sig og vinna leikina.

„Síðustu leikirnir líta nokkuð vel út en við verðum að einbeita okkur að gæðunum í okkar leik en ekki bara láta okkur dreyma um eitthvað sæti í deildinni,“ sagði Arsenal Wenger.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×