Fótbolti

Nýtt met: Byrjunarlið Þjóðverja á móti Frökkum á að baki 120 HM-leiki

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Vísir/Getty
Þjóðverjar treysta á reynsluna í dag þegar þeir mæta Frökkum í átta liða úrslitunum á HM í fótbolta í Brasilíu.

Joachim Löw, þjálfari þýska landsliðsins, gerði þrjár breytingar á byrjunarliði sínu frá því í leiknum á móti Alsír í sextán liða úrslitunum.

Hann setur meðal annars Miroslav Klose í byrjunarliðið í fyrsta sinn í keppninni en Klose er handhafi markametsins ásamt Brasilíumanninum Ronaldo og leikur sinn 22. HM-leik í dag.

Allt byrjunarlið Þýskalands í dag hefur spilað samtals 120 leiki á HM eða vel yfir tíu leiki að meðaltali á mann. Það er nýtt met á HM eins og kemur fram hjá spænska tölfræðisnillingnum Mister Chip.

Gamla metið áttu tvö lið en en byrjunarlið Brasilíu (á móti Frökkum í úrslitaleik 12. júlí 1998) og byrjunarlið Þýskalands (á móti Búlgaríu í 8 liða úrslitum 10. júlí 1994) voru með samtals 107 HM-leiki.

Bæði þessi lið töpuðu sínum leikjum og því er reynslan vissulega ekki allt þegar kemur að því að vinna leik upp á líf eða dauða á HM í fótbolta.

Það er samt mikill munur á HM-reynslu Þjóðverja og Frakka í dag enda hefur þýska liðið samanlegt leikið 75 fleiri leiki á HM en allt byrjunarlið Frakka.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×