Fótbolti

Stutt í að Pele sleppi af spítalanum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Pele.
Pele. Vísir/Getty
Brasilíska knattspyrnugoðsögnin Pele er allur að braggast eftir dvöl á sjúkrahúsi í Sao Paulo og fær væntanlega að fara heim í dag ef marka má fréttir frá Brasilíu.

Pele var lagður inn í gær eftir að hann kvartaði yfir verkjum í maga en hinn 74 ára gamli kappi þurfti að hætta við bókarkynningu vegna verkjanna.

„Hann fór í nokkrar prufur og verður útskrifaður á morgun. Allt er í góðu lagi," sagði Jose Fornos Rodrigues, fyrrum aðstoðarmaður Pele.

Talsmenn sjúkrahússins vilja ekki staðfesta að Pele fái að fara heim í dag en það lítur þó út fyrir það að það sé stutt þar til að hann sleppi af spítalanum.

Pele er einn af bestu knattspyrnumönnum allra tíma og sá eini sem hefur orðið heimsmeistari þrisvar sinnum á ferlinum. FIFA valdi hann besta knattspyrnumann aldarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×