Viðskipti innlent

Neita ekki að afhenda gögn

Freyr Bjarnason skrifar
Upplýsingafulltrúi Vodafone segir fyrirtækið hafa óskað eftir upplýsingum frá öðrum símafyrirtækjum.
Upplýsingafulltrúi Vodafone segir fyrirtækið hafa óskað eftir upplýsingum frá öðrum símafyrirtækjum. Vísir/Vilhelm
Hrannar Pétursson, upplýsingafulltrúi Vodafone, segir það af og frá að fyrirtækið neiti að afhenda gögn vegna fyrirhugaðrar hópmálssóknar Málsóknarfélagsins gegn fyrirtækinu.

Skúli Sveinsson hjá Málsóknarfélaginu hélt því fram í Fréttablaðinu í gær að fyrirtækið vilji bara afhenda gögn til núverandi viðskiptamanna.

„Frá því að það var brotist hér inn höfum við markvisst unnið að því að koma gögnum til þeirra sem hafa óskað eftir gögnum sem tengjast símanúmerum þeirra sjálfra,“ segir Hrannar.

„Við verðum að sjálfsögðu að gera það með réttum hætti og eingöngu að láta umbeðnar upplýsingar í hendur rétthafa hvers númers. Það er einfalt fyrir okkur að staðreyna hver er skráður rétthafi þeirra símanúmera sem við erum að þjónusta. En við höfum ekki upplýsingar um skráða réttahafa númera hjá öðrum símafyrirtækjum þannig að við erum háðir upplýsingum frá þeim varðandi það,“ bætir hann við.

Hrannar segir Vodafone því þurfa að óska eftir staðfestingu um rétthafa þaðan og að almennt hafi fyrirtækin brugðist vel við. „En það eru þó nokkur tilvik þar sem símafélag hefur ekki svarað erindum okkar þrátt fyrir ítrekanir.“ Aðspurður segir hann þær fyrirspurnir vera allt að nokkurra vikna gamlar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×