Freydís Halla fékk 45.95 FIS punkta fyrir sigurinn á mótinu sem er gríðarleg bæting en hún hafði fyrir 56.50 FIS punkta. Það er best að ná sem fæstum stigum.
Freydís Halla náði tveimur góðum ferðum í dag og endaði samtals tuttugu hundraðshlutum á undan Klöru Livk frá Slóveníu en Hollendingurinn Birgit Henrich varð síðan þriðja.
Freydís Halla varð í 14. sæti á svigmóti í Jenner í Þýskalandi í gær og fékk þá 95.27 FIS punkta en það mót var mun sterkara. Á morgun keppir Freydís aftur í Bad Wiessee og líka á mánudaginn, en þá keppa einnig þær Helga María Vilhjálmsdóttir og María Guðmundsdóttir.
Freydís Halla er önnur íslenska skíðakonan sem nær að vinna FIS-mót á þessu tímabili en María Guðmundsdóttir vann svigmót í Noregi fyrir áramót.
Íslensku landsliðstelpurnar eru á lokasprettinum í undirbúningi sínum fyrir Vetrarólympíuleikana í Sochi í Rússlandi.
