Fótbolti

Ragnar: Ætlum að spila góðan sóknarleik

Anton Ingi Leifsson skrifar
Ragnar Sigurðsson tæklar tyrkneskan leikmann í síðasta heimaleik.
Ragnar Sigurðsson tæklar tyrkneskan leikmann í síðasta heimaleik. Vísir/Getty
Ragnar Sigurðsson, varnarjaxl Íslands, er spenntur fyrir að spila gegn eins sterkum leikmönnum og Robin van Persie og Arjen Robben.

„Þessi góða byrjun hefur alls ekki komið mér á óvart," sagði Ragnar ákveðinn.

„Ég vissi ekkert hvernig Tyrkjaleikurinn myndi spilast, en eftir tíu mínútur sá ég að við vorum að yfirspila þá. Síðan urðum við manni fleiri og þá varð þetta allt miklu auðveldara."

„Á móti Lettum bjóst maður alveg eins við að halda hreinu ef allir væru einbeittir, en þetta kemur mér ekkert þannig séð á óvart. Við erum mjög sáttir með að halda hreinu í þessum fyrstu tveimur leikjum."

„Að sjálfsögðu gæti það gerst að við liggjum til baka og beitum skyndisóknum, en það er ekkert sem við erum búnir að plana."

„Ef Hollendingarnir eru með boltann og eru að spila vel þá verðum við nátturlega að spila varnarleikinn aftar á vellinum, en þegar við fáum boltann þá ætlum við að spila góðan sóknarleik."

Ragnari hlakkar til að berjast við kalla á borð við Arjen Robben og Robin van Persie.

„Það verður mjög gaman og ég hlakka mjög til þess. Það verður áskorun fyrir okkur í vörninni."

Við ætlum að taka þrjú stig. Það er krafan hjá okkur, en svo sjáum við bara til hvað gerist," sagði þessi feyknaöflugi varnarmaður að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×