Enski boltinn

Sjötti sigur Everton í röð

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Everton vann sannfærandi sigur á Arsenal, 3-0, í fyrri leik dagsins í ensku úrvalsdeildinni og er nú aðeins einu stigi frá Meistaradeildarsæti.

Þetta var sjötti deildarsigur Everton í röð en liðið var mun sterkari aðilinn í dag. Steven Naismith gaf tóninn strax á fjórtándu mínútu er hann skoraði eftir að hafa fylgt eftir skoti Romelu Lukaku sem var varið.

Lukaku bætti svo við marki 20 mínútum síðar með einkar laglegu skoti eftir að hafa leikið tvo varnarmenn Arsenal grátt.

Sigur liðsins var svo innsiglaður í síðari hálfleik er Mikel Arteta, fyrrum leikmaður Everton, varð fyrir því óláni að skora sjálfsmark.

Arsenal er enn í fjórða sætinu með 64 stig en Everton er nú aðeins stigi á eftir í fimmta sætinu. Lærisveinar Arsene Wenger hafa aðeins unnið einn af síðustu sex leikjum liðsins og tvo af síðustu níu í deildinni.

Roberto Martinez hefur hins vegar verið að gera frábæra hluti með Everton síðustu vikurnar og virðast þeir bláklæddu vera til alls líklegir á lokaspretti tímabilsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×