Erlent

Sjö Indverjar dæmdir til dauða fyrir hópnauðgun og morð

Bjarki Ármannsson skrifar
Mörg nauðgunarmál hafa vakið óhug í Indlandi á undanförnum árum þrátt fyrir strangari löggjöf.
Mörg nauðgunarmál hafa vakið óhug í Indlandi á undanförnum árum þrátt fyrir strangari löggjöf. Vísir/AFP
Indverskur dómstóll dæmdi í dag sjö menn til dauða fyrir að nauðga og myrða nepalska konu í febrúar síðastliðnum. 

Seema Singhal, konan sem kvað upp dóminn yfir mönnunum, sagðist vilja senda sterk skilaboð til almennings með dóminum. Segir hún mikið kynjamisrétti enn ríkja í indversku þjóðfélagi.

Konan sem myrt var hvarf í Haríana-héraðinu og fannst látin á akri þremur dögum síðar. Rannsókn á dauða hennar leiddi í ljós að henni hafði verið hópnauðgað og steinum og hnífsblöðum komið fyrir inni í henni. Lét læknir sem kom að rannsókninni þau orð falla í indverskum fjölmiðlum að hann hefði aldrei séð skelfilegra tilfelli á ferli sínum.

Málið er eitt af mörgum nauðgunarmálum sem vakið hafa óhug í Indlandi á undanförnum árum þrátt fyrir strangari löggjöf. Mennirnir sjö verða hengdir en annar sem grunaður var um aðkomu að málinu svipti sig lífi stuttu eftir handtöku. Þá er einn til viðbótar undir lögaldri og hefur hann verið dreginn fyrir unglingadómstól.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×