Erlent

Aðild orðin að veruleika

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Konur á Gasa Mikil eyðilegging varð í 50 daga loftárásum Ísraelshers á Gasasvæðið síðasta sumar.nordicphotos/AFP
Konur á Gasa Mikil eyðilegging varð í 50 daga loftárásum Ísraelshers á Gasasvæðið síðasta sumar.nordicphotos/AFP
Aðild Palestínu að Alþjóðlega sakadómstólnum, sem er stríðsglæpadómstóll, tók gildi í gær og þýðir að dómstóllinn hefur nú umboð til að rannsaka meinta stríðsglæpi sem framdir hafa verið frá og með 13. júní síðastliðnum.

Það þýðir að Gasastríðið síðastliðið sumar, sem hófst 8. júlí og stóð í fimmtíu daga, fellur innan tímabilsins. Bæði Ísraelar og Palestínumenn hafa verið sakaðir um að hafa framið stríðsglæpi í þessum átökum.

Loftárásir Ísraela á Gasa kostuðu meira en 2.000 Palestínumenn lífið. Langflestir þeirra voru almennir borgarar. Ísraelar misstu aftur á móti 66 hermenn og sex almenna borgara. Flugskeytasendingar Palestínumanna yfir landamærin til Ísraels hafa sömuleiðis verið sagðar stríðsglæpir, enda var almennum borgurum með þessu stefnt í hættu þótt lítið tjón hafi í reynd orðið af flugskeytunum.

Hvorki Palestínumenn né Ísraelar geta, ekki frekar en önnur lönd, formlega kært mál til dómstólsins. Dómstóllinn getur hins vegar sjálfur haft frumkvæði að rannsókn, og hægt er að senda honum upplýsingar til skoðunar.

Dómstóllinn gæti einnig tekið til rannsóknar framferði Ísraela á hernumdu svæðunum. Samkvæmt sáttmálanum, sem dómstóllinn starfar eftir, telst bæði landtaka á hernumdum svæðum og nauðungarflutningar íbúa hernuminna svæða til stríðsglæpa.

Mannréttindasamtökin Human Rights Watch segja aðild Palestínu að dómstólnum fagnaðarefni. Ríki heims eigi að sýna henni stuðning.

Bandaríkin, Ísrael og Kanada eru hins vegar gagnrýnd fyrir að hafa reynt að vinna gegn aðild Palestínu að dómstólnum.

Frá því Benjamín Netanjahú varð forsætisráðherra Ísraels árið 2009 hafa Ísraelar eyðilagt heimili meira en fimm þúsund Palestínumanna á Vesturbakkanum. Jafnframt hafa Ísraelar á þessu sama tímabili reist eða hafið byggingu meira en 10 þúsund heimila fyrir ísraelska landtökumenn á Vesturbakkanum.

„Stjórnvöld ríkja, sem leitast við að refsa Palestínumönnum fyrir að gerast aðilar að Alþjóðlega sakadómstólnum eiga strax að láta af þrýstingi sínum,“ segir Balkees Jarrah hjá Human Rights Watch. „Það sem er gagnrýnivert eru þessar tilraunir til að grafa undan alþjóðlegu réttarfari, ekki ákvörðun Palestínu um að gerast aðilar að samningi sem meira en 100 lönd víðs vegar um heim eiga aðild að.“

Mannréttindavaktin segir hvorki Ísraela né Palestínumenn hafa staðið sig vel við að draga sína menn til ábyrgðar fyrir stríðsglæpi, hvorki sumarið 2014 né heldur fyrri brot.

Rannsókn á atburðunum síðasta sumar stendur þó yfir á vegum ísraelska hersins og Ísraelsríki hefur sömuleiðis boðað rannsókn. Ekki er vitað til þess að Palestínumenn ætli að gera neina rannsókn á þessum atburðum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×