Erlent

Eyða stærstu eiturvopnabirgðum Bandaríkjanna

Samúel Karl Ólason skrifar
Sinnepsgas. Mynd tengist frétt ekki beint.
Sinnepsgas. Mynd tengist frétt ekki beint. Wikimedia Commons
Bandaríski herinn hóf í gær að eyða stærstu eiturvopnabirgðum landsins. Allt í allt verður um 2.600 tonnum af sinnepsgasi eytt á næstu árum.

Bandaríkin hafa byggt sjálfvirka verksmiðju, sem notuð verður til að eyða stærstum hluta efnavopnanna, en sinnepsgasið er í um 780 þúsund fallbyssuskotum.

Eyðing gassins er hluti af alþjóðlegu samkomulagi frá 1997 um bann við notkun efnavopna. Reiknað er með að það muni taka um fjögur ár að eyða tonnunum 2.600. Þar að auki verður 523 tonnum eytt í annarri verksmiðju á næstu árum.

Bandaríkin hafa framleitt rúm þrjátíu  þúsund tonn af sinnepsgasi en nærri því níutíu prósentum af því hefur þegar verið eytt í brennsluofnum. Þeirri aðferð hefur nú verið hætt þar sem íbúar og embættismenn nærri brennsluofnunum höfðu lýst yfir áhyggjum vegna uppgufunar frá ofnunum.

Nú eru önnur efni notuð til að gera efnavopnin hættulaus.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×