Erlent

Hnífjafnt í ísraelsku þingkosningunum

Bjarki Ármannsson skrifar
Benjamín Netanjahú greiddi atkvæði í morgun.
Benjamín Netanjahú greiddi atkvæði í morgun. Vísir/AFP
Mjög mjótt er á mununum í ísraelsku þingkosningunum sem fóru fram í dag. Útgönguspár benda til þess að Likud-flokkur Benjamíns Netanjahú forsætisráðherra og Samband síonista, bandalag mið- og vinstriflokka, fái um 27 sæti á þinginu hvor um sig.

Kjörklefar lokuðu um klukkan átta að kvöldi á íslenskum tíma og munu úrslitin sennilega ekki liggja fyrir fyrr en í fyrramálið, að því er fréttastofa BBC greinir frá. Þá mun Rueven Rivlin, forseti Ísraels, veita forystumanni annars flokksins umboð til að mynda ríkisstjórn. Miðað við útgönguspár getur hvorugur flokkurinn myndað meirihlutastjórn án stuðnings annarra flokka.

Sjá einnig: Netanyahu gagnrýnir viðræður Bandaríkjanna við Íran

Netanjahú sagði fyrr í kvöld að samkvæmt spám væri um „frábæran sigur“ Likud-flokksins að ræða, en fylgi hans hefur mælst talsvert minna en fylgi Sambands síonista að undanförnu. Jitsjak Hersog, formaður Sambands síonista, kallar fullyrðingar Netanjahú hinsvegar „ótímabærar“ og segist bíða lokaniðurstaðna kosninganna.

Hinn 65 ára Netanyahu rak á síðasta ári tvo ráðherra úr ríkisstjórn sinni þar sem hann sakaði þá um að grafa undan stjórninni. Hann boðaði í kjölfarið til þingkosninga í þeirri von að geta myndað nýja ríkisstjórn. Netanyahu þvertók í gær fyrir að stofnað yrði sjálfstætt ríki Palestínumanna, fengi hann endurnýjað umboð í kosningunum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×