Erlent

Þingkosningar í Ísrael: Búist við að það verði mjótt á munum

Atli Ísleifsson skrifar
Benjamin Netanyahu greiddi atkvæði í Jerúsalem í morgun.
Benjamin Netanyahu greiddi atkvæði í Jerúsalem í morgun. Vísir/AFP
Þingkosningar fara fram í Ísrael í dag. Fyrirfram er búist við að mjótt verði á munum milli Likud-flokks Benjamíns Netanyahu forsætisráðherra og Sambands síonista, bandalags mið- og vinstriflokka.

Samband síonista heita því að vinna að bættum samskiptum Ísraels og Palestínumanna og alþjóðasamfélagsins almennt.

Fylgi flokks Netanyahu hefur mælst nokkuð minna en Sambands síonista í skoðanakönnunum síðustu daga. Í gær þvertók Netanyahu fyrir að stofnað yrði sjálfstætt ríki Palestínumanna, fengi hann endurnýjað umboð í kosningunum.

Í frétt BBC segir að efnahagsmál og almenn lífsgæði ísraelskra borgara hafi verið helstu málin í kosningabaráttunni.

Langar stjórnarmyndunarviðræður framundan

Kjörstaðir opnuðu í morgun og verður lokað klukkan 20 að íslenskum tíma. Reiknað er með að úrslit verði kynnt fljótlega eftir að kjörstaðir loka, en búist er við að stjórnarmyndunarviðræður muni taka langan tíma.

Netanyahu hefur gegnt embætti forsætisráðherra landsins síðastliðin sex ár.

Enginn flokkur hefur nokkurn tímann náð hreinum meirihluta á ísraelska þinginu og er ekki búist við að Likud-flokkur Netanyahu eða Samband síonista muni hvor um sig ná meira en fjórðung þingsæta.

Hinn 65 ára Netanyahu rak á síðasta ári tvo ráðherra úr ríkisstjórn sinni þar sem hann sakaði þá um að grafa undan stjórninni. Hann boðaði í kjölfarið til þingkosninga í þeirri von að geta myndað nýja ríkisstjórn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×