Erlent

Gangnam Style og áróður: Hvað er Suður-Kórea að spila við landamærin?

Samúel Karl Ólason skrifar
Hátalarakerfi Suður-Kóreu hafði ekki verið gangsett í ellefu ár.
Hátalarakerfi Suður-Kóreu hafði ekki verið gangsett í ellefu ár. Vísir/EPA
Uppsetning hátalarakerfa við landamæri Norður- og Suður-Kóreu mun mögulega leiða til stríðs á milli þjóðanna. Á fimmtudaginn skutu Norður-Kóreumenn á hátalara í bænum Yeoncheon og úr suðri var svarað með tugum skota. Síðan þá hefur spennan á Kóreuskaganum verið mikil og hótanir hafa farið á víxl yfir landamærin.

Í ljósi þeirra deilna sem eiga sér nú stað á Kóreuskaganum er tilefni til að skoða hvað það er sem Suður-Kóreumenn eru að varpa yfir landamærin með þeim hátölurum sem Norður-Kóreumenn skutu á fyrir helgi.

Það sem spilað er í hátölurunum er oftast sama efni og á Voice of Freedom útvarpsstöðinni, sem sendir einnig útvarpsbylgjur yfir landamærin.

Meðal þess sem þar má heyra eru Suður-Kóresk popplög eða svokallað K-Pop, þar á meðal Gangnam Style, upplýsingar um búddisma, upplýsingar um veður, sögur liðhlaupa úr norðri og auðvitað áróður gegn Kommúnistastjórninni í Norður-Kóreu. Þar er Kim Jong Un, leiðtogi Norður-Kóreu, gagnrýndur beint sem og mannréttindabrot stjórnvalda. Liðhlaupar úr norðri segja frá lífi sínu í Suður-Kóreu og fleira.

Sagt er frá því hvernig lífið í Suður-Kóreu gengur fyrir sig og fjallað er um sameiginlega menningu og sögu landanna tveggja. Inn á milli má heyra lög eins og þetta.

Kveikt var á hátölurunum eftir að Norður-Kóreumenn voru sakaðir um að koma fyrir jarðsprengjum sunnanmegin við landamærin sem særðu tvo Suður-kóreska hermenn. Því neita yfirvöld í Pyongyang.

Sjá einnig: 
Slökkva ekki á hátalarakerfinu nema að Norður-Kórea biðjist afsökunar

Einungis nokkrum dögum eftir að kveikt var á hátölurunum í suðri voru Norður-Kóreumenn búnir að koma fyrir sínum eigin hátölurum. Þeir eru hins vegar sagðir svo gamlir að erfitt sé að skilja hverju þeir varpi yfir landamærin.

Tæknilega séð ríkir enn stríð á milli þjóðanna og koma reglulega upp sambærileg atvik við vesturhluta landamæranna. Kóreustríðið, sem lauk árið 1953, endaði ekki með friðarsamningi heldur eingöngu vopnahlé.

K-Pop

Tengdar fréttir

Kóreuskagi á barmi styrjaldar

Norður- og Suður Kórea hafa skipst á stórskotaliðsskotum yfir helgina. Friðarviðræður hófust á laugar­daginn og virðast engan endi ætla að taka en ríkin saka hvort annað um að bera ábyrgð á ástandinu.

Stórskotahríð í Kóreu

Herinn í Norður-Kóreu virðist hafa skotið eldflaug á hátalara sunnan megin við landamærin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×