Erlent

Fær Makedónía nýtt nafn?

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Makedóníumenn og Grikkir hafa í 24 ár staðið í einni óhefðbundnustu milliríkjadeilu seinni tíma, nafnadeilu.
Makedóníumenn og Grikkir hafa í 24 ár staðið í einni óhefðbundnustu milliríkjadeilu seinni tíma, nafnadeilu. Vísir/Getty
Nikola Gruevski, forsætisráðherra Makedóníu, er reiðubúinn til þess að skoða það að breyta heiti ríkisins en Makedóníumenn og Grikkir hafa í 24 ár staðið í einni óhefðbundnustu milliríkjadeilu seinni tíma, nafnadeilu.

Þegar Makedónía lýsti yfir sjálfstæði frá Júgóslavíu árið 1991 tók ríkið formlega upp heitið lýðveldið Makedónía. Það fór í taugarnar á fjölda Grikkja sem telja að þar með hafi Makedóníumenn stolið heitinu frá gríska héraðinu Makedóníu sem liggur að landamærum Makedóníu og Grikklands.

Nú hefur Gruevski hinsvegar sagst vera reiðubúinn til þess að breyta heitinu svo fremi sem nýtt heiti verði samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu.

 

Grikkir hafa neitað Makedóníumönnum um inngöngu í NATO og ESB vegna deilunnar

Grikkir hafa lengi sakað Makedóníumenn um tilraunir til þess að eigna sér stóra hluta af menningu og sögu Grikkja til þess að byggja upp eigin þjóðarímynd. Má þar nefna Alexander hin mikla en til að mynda er aðalflugvöllur Makedóníu skýrður eftur honum.

Deilan hefur orðið til þess að Grikkland beitti neitunarvaldi gegn því að Makedónía fengi inngöngu í NATO og ESB auk þess sem að Sameinuðu þjóðirnar setja fyrrverandi lýðveldi Júgóslavíu í sviga fyrir aftan ríkjaheiti Makedóníu og mun það halda áfram þangað til deilan leysist.

Hingað til hafa flestar nafnabreytingartillögur snúist um að bæta við nýja- eða efri- fyrir framan heiti Makedóníu en Grikkjum hefur ekki þótt það duga.

Á undanförnum árum hafa samskipti á milli ríkjanna þó batnað hægt og rólega. Árið 2007 slökuðu Grikkir á kröfum sínum og samþykktu að nýtt nafn Makedóníu mætti fela í sér heitið Makedóníu en áður höfðu grískir ráðamenn ekki sætt sig við neitt slíkt.

Utanríkisráðherra Makedóníu heimsækir Aþenu á morgun og verður þar með fyrsti ráðherra Makedóníu í fimmtán ár til að heimsækja Grikkland. Í sumar sótti grískur kollegi hans Makedóníu heim og var þar með fyrsti ráðamaður Grikklands til þess að heimsækja Makedóníu í ellefu ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×