Erlent

Átta látnir eftir að hvirfilbylir fóru yfir hluta Texas

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
vísir/getty
Í það minnsta átta eru látnir eftir að hvirfilbylir fóru yfir Texas-ríki í gær. Á undanförnum dögum hafa því 26 manns látist í stormum eða óveðri víðsvegar um Bandaríkin. Þetta kemur fram á vef BBC.

Fimm létust þegar hvirfilbylur fór yfir hraðbraut, í Garland skammt frá Dallas, og feykti bílum þeirra af veginum. Þrír fundust látnir í nærliggjandi bæjum og þorpum Í Texas skemmdust bílar og kirkjur auk þess að tré rifnuðu upp með rótum. Um 30.000 manns eru nú án rafmagns en einnig er talið að gasleiðslur séu í sundur á nokkrum stöðum.

Veðrið í suðurríkjum Bandaríkjanna hefur verið nokkuð óvenjulegt þennan veturinn. Á næstu dögum er von á snjóbyl sem lýst hefur verið sem „sögulegum“. Verstu spár herma að allt að fjörutíu sentímetrar af snjó geti fallið.

Líkt og áður hefur verið minnst á hafa minnst 26 látist í óveðrum í Bandaríkjunum það sem af er vetri. Þar af létust tíu í Mississippi og sex í Tennessee. Fyrr í mánuðinum fóru tuttugu hvirfilbylir yfir Mississippi-ríki en yfir fimmtíu slösuðust í þeim og 400 heimili eru löskuð eða ónýt eftir þá.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×