Erlent

Þriggja ára stelpa kom móður og ófæddum bróður til bjargar

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Hetjan þriggja ára ásamt móður sinni og nýfæddum bróður.
Hetjan þriggja ára ásamt móður sinni og nýfæddum bróður.
Emma Bazzard, þriggja ára stelpa á Bretlandseyjum, á von á viðurkenningu fyrir hugrekki sem hún sýndi í nóvember með símtali í neyðarlínuna. Ólétt móðir hennar hafði fallið niður tröppur á heimili þeirra og misst meðvitund.

Símtalið varði í ellefu mínútur þar sem hetjan þriggja ára ræddi við starfsmann neyðarlínunnar og útskýrði hvað gerst hafði. Gat hún gefið upp heimilisfang þeirra og nafn móður sinnar.

Heilbrigðisstarfsmenn voru sendir á vettvang um leið og hafði stúlkan meira að segja tekið úr lás þegar þá bar að garði.

Tókst að fresta fæðingu

Móðir hennar, Catherine, hafði lent á maganum og talið var að hefja þyrfti fæðingu sem hefði verið sjö vikum fyrir settan fæðingardag. Með aðstoð lækna tókst að koma í veg fyrir fæðinguna. Í desember fæddist svo lítill prins á tilsettum tíma.

Emma fær viðurkenningu fyrir hugrekki sitt síðar í mánuðinum þar og mun hún þá hitta fyrir sjúkraliðana sem komu móður hennar til bjargar og starfsmann neyðarlínunnar sem hún ræddi við í mínúturnar ellefu.

„Ég man ekki mikið eftir því sem gerðist en það er alveg á hreinu að Emma var frábær, yfirveguð og klár,“ segir móðirin stolta.

Að neðan má hlusta á brot úr símtalinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×