Erlent

Senegalskur flóttamaður vann 57 milljónir í spænska lottóinu

Atli Ísleifsson skrifar
Ngagne trúir því ekki að hafa unnið svo háa upphæð í lottóinu.
Ngagne trúir því ekki að hafa unnið svo háa upphæð í lottóinu. Vísir/EPA
Flóttamaður frá Senegal vann í vikunni um 400 þúsund evrur, um 57 milljónir króna, í spænska jólalottínu – „El Gordo“ eða „þeim feita“. Hinn 35 ára Ngagne hafði keypt hlut í einum lottómiða sem reyndist vinningsmiði með númerið 79140.

Í frétt danska ríkisútvarpsins segir að Ngagne hafi verið bjargað af spænsku strandgæslunni fyrir átta árum á ferð sinni yfir Miðjarðarhaf, frá norðurströnd Afríku og til Evrópu. Hann var þá um borð í báti, ásamt 65 öðrum, meðal annars konu sem nú er eiginkona Ngagne.

Hann starfaði sem garðyrkjumaður í Almeria-héraði í Andalúsíu eftir að hann kom til Spánar.

„Ég vil gjarnan þakka Spánverjum og spænsku ríkisstjórninni fyrir að bjarga mér þegar ég var á hafi úti,“sagði Ngagne þegar hann ræddi við fréttamenn.

Hann sagðist einfaldlega ekki trúa því að hafa unnið svo stóra fjárhæð. „Það hafa komið tímabil þar sem ég hef ekki einu sinni þénað fimm evrur á dag.“

Ngagne var einn af fjölmörgum lottóspilurum sem keyptu miða með vinningsnúmerinu, en potturinn stóð í fjórum milljónum evra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×