Norski landsliðsmaðurinn Alexander Söderlund spilar ekki áfram með norsku meisturum í Rosenborg því félagið hefur samþykkt að selja aðalframherja sinn til franska liðsins Saint-Etienne.
Franski fréttamiðillinn RMC Sport segir frá því að Alexander Söderlund sé fyrsti leikmaðurinn sem Saint-Etienne muni kaupa þegar félagsskiptaglugginn opnast í byrjun janúar.
Saint-Etienne mun borga um ein og hálfa milljón evra fyrir Alexander Söderlund sem gerir um 213 milljónir íslenskra króna. Hann var með samning við Rosenborg til ársins 2018.
Alexander Söderlund lék á sínum tíma með FH-ingum sumarið 2009 en hann fór FH frá um haustið og gekk til liðs við ítalska liðið Lecco. Söderlund lék með Vard og Haugesund í Noregi áður en hann gekk til liðs við Rosenborg árið 2013.
Söderlund skoraði 3 mörk í 18 leikjum í Pepsi-deildinni sumarið 2009, þar á meðal sigurmarkið í uppbótartíma á móti Breiðablik í 3. umferð deildarinnar. Hin tvö mörkin komu í 5-1 sigri á Stjörnunni í næsta leik á eftir og öll þrjú skoraði hann sem varamaður.
Alexander Söderlund hækkaði markaskor sitt á hverju ári með Rosenborg, skoraði 3 mörk fyrsta tímabilið, þá 13 mörk og á síðasta tímabili skoraði hann 22 mörk í 27 leikjum og varð markakóngur norsku deildarinnar.
Alexander Söderlund, sem er 28 ára gamall, gerir þriggja ára samning við franska liðið. Hér fyrir neðan er viðtal við hann síðan að hann kom til Íslands í sumar þegar Rosenborg mætti KR í forkeppni Evrópudeildarinnar.
Tottenham
Liverpool