Erlent

Fleiri finnast á lífi í námunni

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
vísir/epa
Átta námamenn, sem setið hafa fastir í námu sem féll saman í Kína fyrir fimm dögum, hafa fundist á lífi. Sjö var bjargað um síðustu helgi, en einn fannst látinn.

Tæplega þrjátíu voru í námunni þegar hún hrundi. Erfiðlega hefur gengið að komast að mönnunum en tekist hefur að koma til þeirra flestra mat og vatni. Einhverra er enn leitað.

Á vef BBC segir að eigandi námunnar, Ma Congbo, hafi á sunnudag svipt sig lífi. Ástæðan sé óljós en að yfirvöld í Kína hafi á undanförnum árum hert refsingar gagnvart vinnuveitendum sem gerast sekir um vanrækslu.

Kínverjar eiga langa sögu iðnaðarslysa að baki þó öryggisreglur hafi verið hertar mjög með þeim afleiðingum að fjöldi mannskæðra námuslysa hefur dregist saman frá árinu 2002, þegar um sjö þúsund námumenn létu lífið í vinnunni ár hvert. Í fyrra lést 931 námumaður í vinnuslysum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×