Erlent

Systkini á Spáni sökuð um að hafa lokað litla bróður inni um árabil

Atli Ísleifsson skrifar
Maðurinn fannst á dýnu innan um eigin úrgang í litlu rými í risi í húsi systkinanna.
Maðurinn fannst á dýnu innan um eigin úrgang í litlu rými í risi í húsi systkinanna. Vísir/EPA
Lögregla á Spáni hefur handtekið systkini, 76 ára mann og 61 árs konu, vegna gruns um að þau hafi um árabil misnotað og haldið litla bróður sínum lokuðum inni á heimili fyrir utan borgina Sevilla.

El Pais greinir frá þessu.

Samkvæmt frétt El Pais fannst Carlos, 59 ára bróðir systkinanna, nakinn, óhreinn og mjög vannærður í þriggja fermetra rými í risi þar sem systkinin eru talin hafa haldið honum föngnum. Þau eru sögð hafa lifað á lífeyrisgreiðslum mannsins.

Maðurinn fannst á dýnu innan um eigin úrgang. Spænskir miðlar segja hann hafa orðið fyrir alvarlegum heilaskaða á sínum yngri árum. Sjúkraskýrslur sýna að hann hafi síðast verið tekinn í skoðun árið 1996.

Maðurinn hvarf fyrir mörgum árum en systkinin, sem búa í bænum Dos Hermanas, sögðu nágrönnum að bróðir þeirra hefði verið lagður inn á sjúkrahús.

Lögregla fann manninn þann 17. desember eftir að hafa handtekið eldri bróðurinn vegna óspekta sem rekja mátti til áfengisneyslu hans. Þegar honum var fylgt heim kom lögregla auga á hurð með hengilás. Þegar hún var opnuð fannst maðurinn.

Nágrannar segjast hafa óttast systkinaparið og forðast þau. Systkinin hafi sömuleiðis forðast nágrannana.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×