Erlent

Liðsmenn Daish taldir ætla að leggja til atlögu

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Lögregluverðir standa vörð um ráðhús Brussel.
Lögregluverðir standa vörð um ráðhús Brussel. Nordicphotos/AFP
Belgísk lögregluyfirvöld tilkynntu í gær um handtöku tveggja liðsmanna Daish-samtakanna, sem kenna sig við íslamskt ríki.

Mennirnir tveir eru grunaðir um að hafa lagt á ráðin um að ráðast á kennileiti í Brussel, höfuðborg Belgíu, á næstunni. Að auki er annar þeirra grunaður um að reyna að lokka unga Belga til liðs við samtökin.

Á meðal skotmarka mannanna var stór jólamarkaður í miðborg Brussel.

Lögregla lagði hald á herklæði sem fundust í íbúð mannanna auk áróðursefnis frá Daish. Þó fundust hvorki skotvopn né sprengjur í íbúðinni.

Handtakan kemur í kjölfar stóraukinna aðgerða lögregluyfirvalda í Belgíu gegn mögulegum hryðjuverkamönnum en frá árásinni á París í nóvember síðastliðnum hefur lögregla gert tugi áhlaupa og yfirheyrt hundruð manna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×