Erlent

Fjöldi látinn eftir skotárás í Sviss

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
Lögreglan hefur ekki viljað gefa upp hversu margir létust í skotárásinni en byssumaðurinn sagður meðal hinna látnu. Mynd úr safni.
Lögreglan hefur ekki viljað gefa upp hversu margir létust í skotárásinni en byssumaðurinn sagður meðal hinna látnu. Mynd úr safni. Vísir/AFP
Ótilgreindur fjöldi fólks er látinn eftir skotárás í Würenlingen í Sviss. Lögreglan þar í landi segir að byssumaður hafi hafið skothríð í íbúðahverfi í bænum. Allir hinna látnu eru fullorðnir. Reuters greinir frá þessu og vitnar í yfirlýsingu frá lögreglunni í Sviss.

Maðurinn sem grunaður er um athæfið er meðal hinna látnu, segir talsmaður lögreglunnar. 

Íbúar í hverfinu kölluðu til lögreglu eftir að hafa heyrt skothvelli í kringum 11 í gærkvöldi. Lögreglumenn sem komu á staðinn fundi nokkra látna, bæði utan- og innandyra í húsinu þar sem árásin átti sér stað.

Bærinn Würenlingen er í norðurhluta Sviss.

Hluti fórnarlambanna hið minnsta þekkti árásarmanninn, að sögn lögreglu, að því er BBC greinir frá. Talsmaður lögreglunnar segir að talið sé að málið tengist fjölskyldudeilum og að ekki sé um hryðjuverk að ræða.

Um 4.500 manns búa í Würenlingen sem er staðsettur norðvestur af Zürich. Samkvæmt dagblaðinu NZZ átti skotárásin sér stað í fjölskylduvænu hverfi.

Lögreglan rannsakar nú málið og hefur talsmaður hennar ekki viljað gefa uppi hversu margir létust í árásinni en von er á frekari upplýsingum frá lögreglunni síðar í dag.

Árásin átti sér stað í íbúahverfi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×