Erlent

Vill gera samkynhneigða réttdræpa

Stefán Rafn Sigurbjörnsson skrifar
Það er í höndum dómsmálaráðherra Kaliforníufylkis, Kamala Harris, að móta tillöguna
Það er í höndum dómsmálaráðherra Kaliforníufylkis, Kamala Harris, að móta tillöguna JUSTIN SULLIVAN/AFP
Kaliforníubúar gætu á næstunni þurft að taka afstöðu til þess hvort samkynhneigðir eigi að vera gerðir réttdræpir í þjóðaratkvæðagreiðslu í fylkinu.

Lögfræðingurinn Matt McLaughlin lagði inn tillöguna fyrir fylkisþing Kaliforníu í febrúar í þeim tilgangi að knýja fram þjóðaratkvæðagreiðslu um málið. Í Kaliforníu eru til staðar lög um frumkvæðisrétt borgara til að leggja málefni í almenna atkvæðagreiðslu.

Tillagan sem kallast „lög um bælingu kynvillinga“ kveður á um að kynferðislegt samneyti einstaklinga af sama kyni sé óskapnaður að mati hins almáttuga guðs og að samkynhneigða einstaklinga beri að drepa með byssuskoti í hausinn eða með öðrum „viðeigandi“ hætti.

Tillagan hefur vakið upp miklar deilur í Kaliforníu um hve langt tjáningarfrelsið getur gengið. Hópur LGBT þingmanna í fylkisþingi Kaliforníu hafa ritað lögmannafélagi Kaliforníu bréf þar sem krafist er að hæfni McLaughlin til að starfa sem lögfræðingur verði könnuð. 4600 Kaliforníubúar hafa einnig skrifað undir áskorun þess efnis að lögmannsréttindi McLaughlin verði afturkölluð.

Gagnrýnendur tillögunnar hafa lýst því yfir að frumkvæðisréttur íbúa fylkisins kunni að vera of frjálslyndur. Fjölmiðlaráðgjafinn Carol Dahmen fer fyrir undirskriftarsöfnuninni gegn McLaughlin. Hún segir að þessi tillaga sé ólík öllum öðrum tillögum sem farið hafa í atkvæðagreiðslu í Kaliforníu en ásamt því að vilja afturkalla lögmannsréttindi McLaughlin er hún einnig að vekja athygli á því að endurbæta mætti kosningakerfið.

„Þetta er áhugaverð umræða um mörk tjáningarfrelsisins,“ segir hún í samtali við The Sacramento Bee. „En hér er um að ræða lögfræðing, sem hvetur til manndrápa,“ segir hún.

Þrátt fyrir mikla andúð á tillögu McLaughlin mun hún að öllum líkindum komast á það stig að henni þarf að afla nægra undirskrifta til stuðnings áður en hún kemst í allsherjaratkvæðagreiðslu meðal íbúa fylkisins. Auk þess er það í höndum dómsmálaráðherra Kaliforníufylkis, Kamala Harris, að útfæra hvernig tillagan mun líta út á atkvæðaseðli áður en hún geti farið til atkvæðagreiðslu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×