Erlent

Forsprakki kúrdískrar uppreisnarhreyfingar vill ekki stríð

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Stuðningsmaður Ocalan stekkur yfir bál í Istanbúl á "nowruz“ hátíðinni. "Nowruz“ er persneskt orð yfir nýár.
Stuðningsmaður Ocalan stekkur yfir bál í Istanbúl á "nowruz“ hátíðinni. "Nowruz“ er persneskt orð yfir nýár. vísir/ap
Abduallah Ocalan, leiðtogi kúrdískra uppreisnarmanna, hefur biðlað til stuðningsmanna sinna að halda vopnahlé við stjórnarherinn. Ocalan hefur setið í fangelsi síðan árið 1999 en hann situr af sér lífstíðardóm fyrir landráð. Það var því ekki hann sjálfur sem bar stuðningsmönnum sínum skilaboðin heldur tyrkneski þingmaðurinn Sirri Süreyya Önder en hann heimsótti Ocalan í fangelsið á fimmtudag.

Yfirlýsingin var lesin upp á fjölmennum útifundi þar sem hundruðir þúsunda Kúrda voru saman komnir. Margir telja að hún komi til með að marka tímamót í deilunni. Þrátt fyrir að hafa setið í fangelsi í bráðum sextán ár er Ocalan enn áhrifamikill meðal Kúrda. 

Bardagar Tyrkja og fylkinga Kúrda hafa staðið yfir, með hléum, í þrjá áratugi og kostað tugþúsundir manna lífið. Vopnahlé hefur verið í gildi milli fylkinganna frá 2013 og hefur haldið þrátt fyrir að oft hafi litlu munað að allt fari í bál og brand. Flestir sem hafa fallið eru Kúrdar en hluti þeirra vill stofna sjálfstætt ríki og losna undan hæl Tyrkja. 

Staðan í deilu Tyrkja og Kúrda er eitt erfiðasta málið sem blasir við Tyrkjum. Landsvæði það sem Kúrdar búa á teygir sig að vísu út fyrir Tyrkland og yfir í önnur lönd. Kúrdar finnast í Íran og Írak að ógleymdu Sýrlandi en þeir hafa átt mjög undir högg að sækja þar eftir að Íslamska ríkið tók að herja á þá af miklum þunga. 

Útifundinn þar sem Önder flutti ræðuna má sjá í myndbandi hér að neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×