Erlent

Uppreisnarmenn ná valdi á fleiri borgum

jóhann óli eiðsson skrifar
Meðlimir hersveita sem berjast enn fyrir al Hadi.
Meðlimir hersveita sem berjast enn fyrir al Hadi. fréttablaðið/ap
Þriðja stærsta borg Jemens, Taiz, er fallin í hendur Houthi-uppreisnarmanna. Íbúar borgarinnar þustu út á götur til að mótmæla og féll einn í valinn eftir að hafa fengið táragashylki í sig.

Höfuðborgin San'a hefur verið á valdi uppreisnarmannanna síðan í febrúar eftir að þeir steyptu forsetanum Abdrabbuh Mansour al Hadi af stóli. Hann flúði suður á bóginn til borgarinnar Aden og hefur hafst þar við.

Ástandið í landinu er uggvænlegt en auk Houthi-samtakanna njóta Íslamska ríkið og al-Kaída sívaxandi stuðnings. Bandaríkin hafa tilkynnt að hermenn þeirra muni snúa heim frá landinu sökum ástandsins þar.

Hersveitir uppreisnarmannanna stefna nú suður í átt að Aden og telja margir aðeins tímaspursmál hvenær fleiri borgir falla í þeirra hendur.

Meðlimir samtakanna eru flestir síja-múslimar úr norðurhluta landsins. Eftir að þeir steyptu al Hadi af stóli hefur fimm manna nefnd verið í forsæti landsins. Súnní-múslimar sunnar í landinu neita hins vegar að viðurkenna stjórnina.

Forsetinn sakar Írana um að styðja við bakið á samtökunum. Írönsk stjórnvöld sverja allar slíkar tengingar af sér.

Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna mun koma saman á næstu dögum til að ræða ástandið í landinu og hvað sé hægt að taka til bragðs.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×