Erlent

Sænskri fegurðardrottningu haldið nauðugri á Ítalíu í hálft ár

Atli Ísleifsson skrifar
Konan hafði áður tekið þátt í fegurðarsamkeppninni Ungfrú Alheimur. Myndin tengist fréttinni ekki beint.
Konan hafði áður tekið þátt í fegurðarsamkeppninni Ungfrú Alheimur. Myndin tengist fréttinni ekki beint. Vísir/Getty
Ítalskur karlmaður hefur verið handtekinn fyrir að hafa haldið 23 ára sænskri konu fanginni í íbúð norður af borginni Mílanó síðan í september. Maðurinn er grunaður um að hafa ítrekað nauðgað konunni og beitt hana annars konar ofbeldi.

Í frétt Corriere della Sera segir að konan hafi áður tekið þátt í fegurðarsamkeppninni Ungfrú Alheimur. Hún hélt til Ítalíu síðasliðið haust til að starfa sem fyrirsæta og komst þá í samband við mann á fimmtugsaldri sem sagðist vera umboðsmaður. Hann hafi svo platað hana til að fylgja sér heim til sín þar sem hann lokaði hana inni.

Í frétt sænska ríkissjónvarpsins segir að konan hafi sloppið um helgina eftir að nágrannar greindu lögreglu frá því að öskur hafi heyrst úr húsinu. Þegar lögregla kom á vettvang sagði maðurinn, sem er 42 ára, að hann og kærasta hans hafi verið að rífast. Lögregla ruddist þá inn á heimilið þar sem konan fannst, blá og marin.

Að sögn ítalskra fjölmiðla var konan í svo slæmu ásigkomulagi þegar lögreglan fann hana að hún hafi vart verið þekkjanleg. Maðurinn á að hafa heimilað konunni að hafa samband við fjölskyldu sína um Skype og Facebook, en hann fylgdist þó grannt með öllum slíkum samskiptum.

Maðurinn hefur áður afplánað fjögurra ára dóm fyrir frelsissviptingu og kynferðisbrot. Þá hélt hann átján ára hvít-rússneskri konu fanginni í sama húsi í bænum Cinisello Balsamo, um tíu kílómetrum norður af Mílanó.

„Hann virtist vera vingjarnlegasti maður í heimi,“ á konan að hafa sagt í yfirheyrslu hjá lögreglu.

Konan er nú í áfalli og hefur verið lögð inn á sjúkrahús vegna vannæringar og örmögnunar.

Sænska utanríkisráðuneytið hefur staðfest að sænsk kona hafi orðið fyrir ofbeldisbroti á Ítalíu og að fjölskyldu hennar hafi verið gert viðvart. Þau eru nú á leið til konunnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×