Erlent

Símanúmer og netföng viðskiptavina RadioShack til sölu

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
Vogunarsjóður, sem er einn helsti kröfuhafi verslunarkeðjunnar, vann uppboð á gögnunum á mánudag.
Vogunarsjóður, sem er einn helsti kröfuhafi verslunarkeðjunnar, vann uppboð á gögnunum á mánudag. Vísir/EPA
Netföng, símanúmer og heimilisföng milljóna viðskiptavina RadioShack í Bandaríkjunum eru nú til sölu. Tvö ríki ætla að reyna að koma í veg fyrir söluna, sem er hluti af uppgjöri þrotabús verslunarkeðjunnar.

Óskað var eftir gjaldþrotaskiptum RadioShack í byrjun febrúarmánaðar en skuldir fyrirtækisins eru gríðarlegar. Meðal eigna í þrotabúinu eru upplýsingar um 13 milljón netföng og yfir 65 milljón nöfn og heimilisföng fyrrverandi viðskiptavina raftækjaverslunarkeðjunnar.

Upplýsingarnar voru boðnar upp á mánudag og var það vogunarsjóðurinn Standard General sem átti hæsta boð í gögnin, en sjóðurinn er einn af helstu kröfuhöfum RadioShack. Óljóst er hins vegar hvort að sjóðurinn fái gögnin nokkurn tíman afhent.

Bæði ríkislögmenn Texas og Tennessee hafa gert athugasemdir við uppboðið og sölu upplýsinganna. Í Texas er það brot á ríkislögum að selja upplýsingar úr fyrirtækjum ef friðhelgisskilmálar þeirra mæla gegn því, líkt og í tilfelli RadioShack.

Bandaríska símafélagið AT&T hefur einnig gert sig líklegt til að reyna að stöðva sölu gagnanna en félagið átti í samstarfi við RadioShack um sölu farsíma og telur sig eiga hlut í upplýsingunum. Þá vill félagið ekki að upplýsingarnar lendi í höndum samkeppnisaðila sinna.

Þá er málið einnig til skoðunar hjá bandaríska viðskiptaeftirlitinu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×