Fótbolti

Lærisveinar Ólafs björguðu stigi gegn Bröndby | Fjórði sigur Álasund í röð

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Ólafur Kristjánsson.
Ólafur Kristjánsson. vísir/getty
Lærisveinar Ólafs Kristjánssonar í Randers nældu í stig á útivelli gegn Bröndby með 2-2 jafntefli eftir að hafa lent 0-2 undir í fyrri hálfleik.

Landsliðsmennirnir Hannes Þór Halldórsson og Hjörtur Hermannsson mættust í leiknum í dag en báðir léku þeir allar 90. mínútur leiksins.

Kamil Wilczek og Hany Mukhtar komu Bröndby 2-0 yfir í fyrri hálfleik en Mikkel Kallesoe og Mikael Ishak náðu að jafna metin fyrir Randers í seinni hálfleik.

Var þetta þriðja jafntefli Randers í síðustu fjórum leikjum en eftir góða byrjun á tímabilinu hefur Randers aðeins náð þremur stigum af tólf í síðustu fjórum leikjum.

Í Noregi voru Íslendingarnir í sigurliði í dag en Álasund vann í dag fjórða leik sinn í röð og fjarlægist falldrauginn með hverri umferð.

Aron Elís Þrándarson, Adam Örn Arnarsson og Daníel Leó Grétarsson léku allir nítíu mínútur í dag en hollenski kantmaðurinn Edwin Gyasi skoraði eina mark leiksins.

Þegar fjórar umferðir eru eftir er Álasund fimm stigum frá fallsæti í 10. sæti norsku deildarinnar.

Molde með Björn Bergmann Sigurðarson innanborðs komst aftur á sigurbraut eftir tvo tapleiki í röð en Aron Sigurðarson kom inn af bekknum fyrir Tromsö í 2-0 sigri Molde.

Þá vann Rosenborg 3-1 sigur á heimavelli gegn Valerenga en Hólmar Örn Eyjólfsson, Guðmundur Þórarinsson og Matthías Vilhjálmsson voru allir í byrjunarliði norsku meistaranna.

Hólmar lék allar 90. mínúturnar en Matthías og Guðmundur voru teknir af velli undir lok leiksins án þess að hafa skorað mark.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×