Fótbolti

Magni Fannberg ráðinn þróunarstjóri Brann

Tómas þór Þórðarson skrifar
Magni Fannberg er kominn til Brann.
Magni Fannberg er kominn til Brann. mynd/brann.np
Íslenski fótboltaþjálfarinn Magni Fannberg hefur verið ráðinn þróunarstjóri norska úrvalsdeildarfélagsins Brann. Þetta kemur fram á heimasíðu félagsins.

Hann kemur til Brann frá Brommapojkarna í Svíþjóð þar sem hann sinnti svipuðu starfi áður en hann tók við aðaliðinu fyrir síðustu leiktíð í sænsku B-deildinni.

Magni var mikils metinn hjá Brommapojkarna sem er með eitt öflugasta yngri flokka starf á Norðurlöndum, en nú tekst hann á við nýtt verkefni í Noregi.

Hjá Brann mun Magni stýra varaliði félagsins auk þess sem hann verður yfir strákum frá þrettán ára aldri og upp úr. Þetta gerir hann í samstarfi við Rune Soltvedt, yfirmann knattspyrnumála hjá Brann.

„Magni verður að mörgu leyti þjálfari þjálfaranna hjá okkur. Hann á ekki að vera á skrifstofunni heldur úti á æfingasvæðinu að reyna að búa til rauðan þráð í gegnum okkar yngri flokka starf,“ segir Soltvedt við heimasíðu Brann.

Magni er 36 ára gamall og var áður þjálfari Fjarðabyggðar auk þess sem hann var aðstoðarþjálfari Grindavíkur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×