Handbolti

Umfjöllun: Noregur - Ísland 29-25 | Tap í fyrsta leiknum undir stjórn Geirs

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Aron Rafn varði vel í íslenska markinu.
Aron Rafn varði vel í íslenska markinu. Vísir/epa
Ísland tapaði fyrir Noregi, 29-25, í fyrsta leik sínum undir stjórn Geirs Sveinssonar.

Liðið náði aðeins einni æfingu fyrir leikinn og því varla hægt að búast við róttækum breytingum á leik íslenska liðsins sem byrjaði leikinn ágætlega og komst í 1-3.

Sóknarleikurinn gekk ágætlega en varnarleikurinn var slakur og markvarslan í samræmi við það. Norðmenn skoruðu að vild fyrir utan og í þau fáu skipti sem sú leið var lokuð fundu þeir línuna sem skilaði nær alltaf marki.

Íslenska sóknin var líka striðari með hverri mínútunni og ekki bætti úr skák að liðið fékk engin mörk úr hraðaupphlaupum.

Norðmenn náðu mest átta marka forystu, 18-10, en Íslendingar skoruðu skoruðu síðustu mörk fyrri hálfleik og því munaði sex mörkum, 18-12, á liðunum þegar þau gengu til búningsherbergja.

Aron Rafn Eðvarðsson var smá tíma að finna taktinn eftir að hann kom í markið en hann tók góða bolta á lokamínútum fyrri hálfleiks og átti svo frábæran seinni hálfleik. Aron Rafn varði alls 16 skot (46%) og var langbesti leikmaður íslenska liðsins.

Norðmenn skoruðu tvö fyrstu mörkin í seinni hálfleik en þá kom góður 4-0 kafli hjá Íslandi sem minnkaði muninn í fjögur mörk, 20-16. Snorri Steinn Guðjónsson, sem bar fyrirliðabandið í dag, skoraði tvö þessara marka en hann var markahæstur í íslenska liðinu í dag með fjögur mörk, líkt og Ólafur Guðmundsson.

Norðmenn rönkuðu þó fljótlega við sér og náðu afgerandi forskoti á nýjan leik. Magnus Gullerud kom Noregi í 27-20 þegar níu mínútur voru eftir en íslenska liðið átti ágætan endasprett og náði að laga stöðuna.

Á endanum munaði fjórum mörkum á liðunum, 29-25, og ljóst að Geirs bíður verðugt verkefni að laga leik íslenska liðsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×