Handbolti

Geir og Guðmundur Hólmar liðsfélagar hjá þriðja félaginu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Geir Guðmundsson fagnar bikarmeistaratitlinum með Guðmundi Hólmari Helgasyni.
Geir Guðmundsson fagnar bikarmeistaratitlinum með Guðmundi Hólmari Helgasyni. Vísir/Andri Marinó
Akureyringarnir og frændurnir Geir Guðmundsson og Guðmundur Hólmar Helgason verða áfram liðsfélagar á næstu leiktíð þrátt fyrir að þeir séu báðir á förum frá Val.

Geir hefur nefnilega gert tveggja ára samning við Cesson Rennes en þetta kemur fram á heimasíðu félagsins.

Guðmundur Hólmar hafði áður gert samning við franska efstudeildarfélagið.

Geir og Guðmundur Hólmar hafa leikið undanfarin þrjú tímabil með Val í Olís-deild karla en þar á undan léku þeir saman hjá Akureyrarliðinu.

Fyrir hjá Cesson Rennes hitta þeir Ragnar Óskarsson, aðstoðarþjálfara liðsins, en hann þjálfaði þá hjá Val og þekkir því vel til frændanna.

„Ég hef dreymt um það í fjögur ár að verða atvinnumaður í handbolta og ég er því mjög ánægður með þetta. Ég valdi Frakkland og CRMHB af því að tilboð þeirra var mjög áhugavert. Ég sé fyrir mér gott líf í Rennes og liðið er á góðri leið," sagði Geir í viðtali við heimasíðu Cesson Rennes.

Geir grínaðist einnig með það að frændurnir væru enn á ný að spila saman hjá félagi.

„Ég held að Gummi geti ekki verið án mín og að hann hafi sett það inn í samninginn sinn að ég kæmi líka. Að öllu gríni slepptu þá erum við frændur og vinir. Við höfum alltaf spilað saman. Það er magnað að við skulum báðir spila saman á okkar fyrsta ári sem atvinnumenn," sagði Geir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×