Enski boltinn

Fyrrverandi formaður FA um Stóra Sam: „Hann var heimskur“

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Sam Allardyce baðst afsökunar fyrir utan húsið sitt.
Sam Allardyce baðst afsökunar fyrir utan húsið sitt. vísir/getty
Greg Dyke, fyrrverandi formaður enska knattspyrnusambandsins, segir að Sam Allardyce hafi verið heimskur að koma sér í þá stöðu sem hann gerði.

Stóri Sam þurfti í gær að segja af sér sem landsliðsþjálfari Englands eftir að samþyggja 400.000 punda greiðslu fyrir að aðstoða viðskiptajöfra frá austurlöndum fjær (blaðamenn Telegraph í dulargervi) við að komast framhjá reglum enska sambandsins við kaup á leikmönnum í eigu þriðja aðila.

Sjá einnig:Stóra Sam hrósað fyrir hraustlega hvítvínsdrykkju

Allardyce entist aðeins 67 daga í draumastarfinu sínu. Hann náði að stýra Englandi í einum leik sem hann vann, 1-0, gegn Slóvakíu ytra og kveður því starfið með 100 prósent árangur inn á vellinum en með skít og skömm utan hans.

„Hann er í starfi sem aflar honum þriggja milljóna punda í laun á ári. Til hvers er hann að reyna að sækjast eftir nokkur hundruð þúsund pundum hér og þar?“ segir Dyke í viðtali við Sky Sports, en Dyke lét af störfum fyrr í sumar og var ekki í nefndinni sem fékk Allardyce til starfa.

„Það var mjög óskynsamlegt að segja þessa hluti við ókunnuga menn. Ef þú talar um þessa hluti við menn sem þú þekkir ekki og ert landsliðsþjálfari Englands ertu í vandræðum. Allardyce var heimskur. Þetta er bara fáránlegur hlutur sem hann gerði,“ sagði Greg Dyke.


Tengdar fréttir

Shearer: Enska landsliðið er aðhlátursefni

Alan Shearer, fyrrverandi landsliðsfyrirliði Englands, segir að enska landsliðið sé aðhlátursefni í fótboltaheiminum eftir að Sam Allardyce hætti sem landsliðsþjálfari eftir aðeins 67 daga í starfi.

Stóri Sam segist iðrast gjörða sinna

Eins og fram kom á Vísi fyrir skemmstu er Sam Allardyce hættur sem þjálfari enska landsliðsins í fótbolta. Allardyce entist aðeins 67 daga í draumastarfinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×