Fótbolti

Cech, Barry og Lloyd öll komin í heimsmetabók Guinnes

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Heimsmethafar
Heimsmethafar mynd/guinnes
Petr Cech, markvörður Arsenal í ensku úrvalsdeildinni, Gareth Barry, leikmaður Everton, og Carli Lloyd, leikmaður bandaríska kvennalandsliðsins í fótbolta, eru öll í nýrri útgáfu heimsmetabókar Guinnes fyrir árið 2017.

Cech kemst í bókina fyrir að vera sá markvörður sem oftast hefur haldið hreinu í ensku úrvalsdeildinni en það hefur Tékkinn gert 181 sinnum á mögnuðum ferli með Chelsea og Arsenal.

Gareth Barry er sá leikmaður sem hefur byrjað flesta leiki í ensku úrvalsdeildinni eða 580 á 18 ára ferli með Aston Villa Manchester City og Everton. Hann spilaði 700. leikinn sinn á dögunum en metið er fyrir að byrja 580 leiki.

Carli Lloyd fékk viðurkenningu fyrir þrjú heimsmet en þau setti hún öll í úrslitaleik HM kvenna í Kanada á síðasta ári þar sem Bandaríkin unnu Japan í úrslitaleik.

Lloyd komst í heimsmetabókina fyrir að vera fyrsta konan til að skora þrennu í úrslitaleik HM, fyrir að skora fljótasta markið í sögur úrslitaleiksins og fyrir að vera elsta konan til að skora í úrslitaleiknum en hún var 32 ára og 354 daga gömul þegar leikurinn fór fram.

Önnur íþróttamet í heimsmetabók Guinnes 2017:

Formúlu 1-ökuþórinn Max Verstappen var yngsti maðurinn í sögunni til að vinna mót í Forumúlu 1. Það gerði hann 18 ára og 228 daga gamall á Spáni í maí á þessu ári.

Kylfingurinn Jordan Spieth bætti metið yfir tekjur á PGA-mótaröðinni en hann þénaði 12.030.465 milljónir dala á 2015-tímabilinu.

Novak Djokovic sömuleiðis bætti metið yfir mestar tekjur á einu tímabili í tennis en hann þénaði 21.646.145 milljónir dala.

Serena Williams er sú tenniskona sem hefur unnið risamót yfir lengstan tíma. Hún vann sitt fyrsta 1999 og vann tvö í ár, 17 árum síðar.

Holly Holm varð fyrsta konan til að vinna heimsmeistaratitil í hnefaleikum og MMA en hún tók bantamvigtarbeltið af Rondu Rousey í nóvember á síðasta ári í UFC.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×