Fótbolti

Rúnar ráðinn þjálfari Lokeren

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Rúnar Kristinsson heldur áfram að þjálfa erlendis.
Rúnar Kristinsson heldur áfram að þjálfa erlendis. vísir/stefán
Rúnar Kristinsson hefur verið ráðinn þjálfari belgíska úrvalsdeildarliðsins Lokeren en frá þessu greina belgískir fjölmiðlar. Hann verður kynntur til sögunnar á blaðamannafundi á morgun en félagið á enn eftir að staðfesta ráðningu hans.

Rúnar þjálfaði síðast Lilleström í Noregi en hann var rekinn frá norska félaginu í síðasta mánuði eftir erfitt gengi í norsku úrvalsdeildinni. Rúnar þekkir vel til hjá Lokeren líkt og hjá Lilleström en hann spilaði fyrir belgíska liðið og var í miklum metum hjá stuðningsmönnum þess. Á sjö árum hjá Lokeren var Rúnar tvívegis valinn besti leikmaður liðsins.

Rúnar tekur við starfinu hjá Lokeren af Georges Leekens sem hætti störfum í vikunni en liðið er í þrettánda sæti belgísku úrvalsdeildarinnar. Lekeens var fyrr í dag ráðinn landsliðsþjálfari Alsír.

Aðstoðarþjálfari Lokeren er Arnar Þór Viðarsson, fyrrverandi atvinnu- og landsliðsmaður, sem spilaði með Rúnari fyrir íslenska landsliðið. Arnar Þór hefur stýrt æfingum eftir að Lekeens var látinn fara.

Rúnar spilaði í sjö ár fyrir Lokeren frá 2000-2007 en Arnar Þór spilaði með honum mest allan tímann hjá félaginu. Lokeren hafnaði í ellefta sæti belgísku úrvalsdeildarinnar í fyrra en það er búið að tapa átta af fyrstu tólf leikjum sínum á yfirstandandi leiktíð.

Tveir Íslendingar spila fyrir Lokeren en það eru landsliðsmennirnir Sverrir Ingi Ingason og Ari Freyr Skúlason. Ari Freyr kom til Lokeren eftir Evrópumótið í sumar.

Lokeren verður þriðja félagið sem Rúnar þjálfar en hann tók fyrst við uppeldisfélagi sínu KR og gerði það tvívegis að Íslandsmeisturum og þrisvar sinnum að bikarmeisturum frá 2010-2013.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×