Fótbolti

Argentínskur fótboltamaður endaði leikinn í fangelsi eftir Cantona-spark | Myndband

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sebastian Pol.
Sebastian Pol. Vísir/Getty
Sebastian Pol þurfti að gista í fangelsi yfir nótt eftir hegðun sína í leik Audax Italiano og Universidad Catolica í úrvalsdeildinni í Síle um helgina. Leikmaðurinn hefur beðist afsökunar en er ekki sloppinn.  Atvikið minnti menn á það þegar Eric Cantona brjálaðist fyrir tveimur áratugum síðan.

Sebastian Pol missti algjörlega stjórn á sér eftir köll frá áhorfenda í stúkunni, klifraði yfir hátt grindverk og sparkaði í áhorfandann.

Sjónvarpsmyndavélar náðu atvikinu en leikmaðurinn náði góðu sparki í brjóstkassa stuðningsmannsins. Stuðningsmaðurinn hélt þó jafnvæginu og stóð áfram í fæturna eftir sparkið.

Sebastian Pol var greinilega orðinn mjög pirraður en liðið hans tapaði leiknum 4-1. Það afsakar þó ekki þessa hegðun hans.

Pol fékk heldur ekki að fara heim eftir leikinn. Hann var handtekinn, fluttur í burtu í lögreglubíl og gisti í fangaklefa yfir nótt.

Atvikið minnti á það þegar Eric Cantona tók eitt gott karatespark á stuðningsmann Crystal Palace í leik með Manchester United árið 1995. Cantona var dæmdur í átta mánaða bann.

Sebastian Pol er örugglega á leiðinni í langt bann auk þess að eiga kæru yfir höfði sér vegna líkamsrásar.

Pol má ekki koma nálægt íþróttaviðburðum næstu tuttugu daga og þá eiga forráðamenn úrvalsdeildarinnar í Síle eftir að ákveða sína refsingu.

Það er hægt að sjá myndband frá atvikinu hér fyrir neðan sem og þegar Pol er fluttur í burtu í lögreglufylgd.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×